May 30, 2007

Action

Lentum í sérstakri reynslu um daginn hérna í Bushlandi. Þar sem Korthjónin eru bæði búin með vorönnina þá vorum við bæði heima að hvíla lúin bein og heila og endurhlaða batteríin fyrir komandi sumarönn. Hugmynd Kortara um hvíld felst meðal annars í því að horfa á gott sjónvarpsefni og aðrar áreynslulausar athafnir. Í miðri Kort-síestu var dyrarbjöllunni hringt, ekki var von á neinum hvorki pakka frá ebay né gestum. Geð-Kortið tók á móti dinglaranum sem í þetta sinn var umkomulaus heimilislaus rónakona. Geðið auðvitað þaulvanur eftir alla klínikina í vetur hélt ró sinni. Konan var komin til að biðja um hjálp en hún tjáði G að vinkona hennar væri niðri í garði, parkinn sem er fyrir neðan okkur, og að eins og hún sagði sjálf she is bleeding excessively. Geðið átti nú von á öllu, skaust upp náði í handklæði og hélt af stað tilbúin að veita fyrsta flokks hjúkrunarnærveru, á meðan hann hringdi í 911. Þegar G mætti á svæðið þar sem nokkrir heimilislausir höfðu búið um sig rétt fyrir neðan garðinn, voru engar óhóflegar blæðingar í gangi en þar var vinkonan með nokkra tíma gamalt nefbrot og smá blæðingar í kjölfarið á því. Gellan hafði verið kýlt af kærasta sínum fyrr um daginn. Heimilisofbeldi eða í þessum aðstæðum heimilislaustofbeldi í gangi þar. Sjúkraflutningsmennirnir komu svo eftir að Geðið var búið að leiðbeina þeim á staðinn því, dvalarstaðurinn var vel falinn. Kortfrúin var viss um að þetta væri allt stórt plott gert til þess að ræna Geðið...Já, sumar paranojur eru lífseigar. Um daginn fór Geði og gaf blóð eða blóðflögur og tók það ansi langan tíma, frúin var á þeim tíma farin að trúa því að gæinn hefði lent í höndunum á líffæraþjófum, sem væru búnir að hreinsa gaurinn. Allavegna alltaf gaman að lenda í action.

May 25, 2007

Batahelgi

Korthjónin skrifuðu undir húsaleigusamninginn í gær, þar með er það skjalfest. Liðið flytur í vestur Minneapolis 1 júlí þar sem fína fólkið býr við vötnin. Heyrðum það um daginn að hverfið okkar í dag er þekkt undir nafninu little Mogadishu . Bara gaman af því! Við erum geðveikt spennt fyrir flutningunum. Þangað til chillum við bara hérna með Sómalíuliðinu og njótum þess að vera í göngufæri við bæði campusinn og Fairview sjúkrahúsið (þar sem frúin er í mæðravernd).
Í kvöld er stefnan tekin á stóra samkomu sem er árleg hérna í Minneapolis og kallast Gopher State Roundup. Það verður sérstaklega gaman að hlusta á hin íslenskuættaða Karl M, Íslandsvin með meiru. Já, þó svo Kortarar sjái fram á betri búsetu í samfélagi við bæði milli og efristéttir. Þá höfum við ekki gleymt fortíðinni dimmu og sækjum því áðurnefndar samkundur með bros á vör. Peace

May 21, 2007

Valleyfair og sólbruni

Kortfamilían ákvað að fagna formlega annarlokum og góðum námsárangri hjónanna með því að skella sér í Valleyfair um helgina. Þessi garður fær topp einkunn, þarna eru tæki fyrir alla aldurshópa þannig að allir geta skemmt sér vel. Geðkortið fékk þarna góða útrás í mörgum tækjunum. Sömu sögu er að segja af B kort sem fílaði þetta í botn og var ansi þorinn. Að hans sögn þá var hann að passa pabba sinn í flestum tækjunum. Frúin fékk að fara í hringekkju og parísarhjól. Sökum óléttu var henni meinaður aðgangur að öllum öðrum tækjum. Því fylgdist kella bara með skemmtun Kortfeðganna og skaðbrenndist á öxlunum á meðan. Lexía dagsins: þegar sól er, þá skal nota sólarvörn. Valleyfair er staður sem Kortarar munu vafalaust heimsækja aftur. Sunnudagurinn fór svo í playdate með Miles vini hans B þar sem drengirnir skelltu sér m.a. í sund. Íslenskur hryggur var svo eldaður al Kort og mömmu hans Miles boðið í mat. Góð helgi þar fyrir Kortara, (fyrir utan sólbruna sem leiddi af sér andvökunótt hjá Kortfrú, smá problem að sofa á maganum þegar eitt stykki barn er þar fyrir).
Af húsnæðismálum er bara gott að frétta, Kortarar fengu símtal áðan þar sem staðfest var að við fáum að leiga hús sem að okkar mati er bara draumur. Við hættum s.s. við góða húsið sem planið var að leiga og fórum í húsnæðisleit að nýju. Fundum þá hús á þremur hæðum með þremur svefnherbergjum, einu family room með arinn, eldhúsi þaðan sem labbað er út á verönd með garði+ bílskúr og önnur rafmagnstæki sem halda hjónaböndum saman eins og uppþvottavél og öðru eins. Hús þetta er í vestur minneapolis í göngufæri við sjálft Lake Calhoun. Annað í göngufæri eru m.a lítil stönd, Whole foods búðin og skemmtilegir veitingastaðir. Eins er hverfið bara skemmtilegt ekkert broken windows dæmi í gangi hér. Kortara eru bara ánægðir með þessar fréttir sem sýna okkur enn og aftur að það góða getur verið óvinur hins besta.

May 19, 2007

Samvinna

Hressleikinn ræður ríkjum hér í landi hinna frjálsu. Önnin senn á enda kominn og tími til kominn að fá sér vinnu, svona með 10 einingunum og nýja kvekindinu, svo manni ekki leiðist. Tveir spítalar komu til greina eftir ýmsar útilokunaraðferðir. Einn þeirra er með heila deild af sjúklingum með antisocial personality disorder. Sjúkdómgreining krimmans. Ætti ekki að vera mikið mál. Hinn er í norður úthverfunum. Gæti skellt mér í smá ER afleysingar þar. Séð fleiri skotsár en þau gera á herspítalanum í Bagdad. Báðir vildu geðkortið vegna góðra meðmæla samnemenda sem vinna á stöðunum, “hveim er sér góðan getur” og allt það. Var nú einu sinni frægur að endemum. Virkar betur að hafa góðan orðstír heldur en vera frægur að endemum þegar sótt er um vinnu. Einhvurra hluta vegna……….
Jamms maður ætti að koma heim hokinn af reynslu, með svona 1000 yard stare eins og þeir fengu í Víetnam. Vera eins og gellan sem kenndi okkur bráðahjúkrunina heima, lærði útí Florída, var orðinn sérfræðingur í að meðhöndla stungusár í heilastofninn. Með ydduðum tannburstum. Það var nebblilega ríkisfangelsi nálægt spítalanum………
Er búinn að framkvæma ansi mörg greiningarviðtöl frá áramótum. DSM IV orðinn samgróinn vitundinni. Skjótari en skugginn að greina. Öll mannleg hegðun er fyrir mér eitt stórt sjúkdómseinkenni. Sérlega góður að framkvæma skyndi- Axis 2 greiningar (persónuleikaraskanir) á gestum og gangandi, en þó sérlega vinum og vandamönnum.

Í tilefni af því hversu kaninn hefur tekið Kortfjölskyldunni vel læt ég hér fylgja með annað frábært dæmi um samvinnu norrænna manna og Amrískra.
http://www.youtube.com/watch?v=t2RmgQo8N-M&mode=related&search=

May 18, 2007

Velkominn Kári

Kortfamilían eignaðist nýjan vin á dögunum eða 10 maí sl. Nýji vinurinn Kári gæi er sonur Evu Kortvins til margra ára. Eva er m.a ein af þeim útvöldu sem var þess heiðurs aðnjótandi að fá að búa með Korthjónum þegar Kortævintýrið byrjaði á Sólvallagötu 9 um árið (að verða 7 ár). Við samgleðjumst Evu og Edda innilega með litla gaurinn. Gæinn er víst rauðhærður en samkvæmt læknisfrúnni er það toppurinn. Við hlökkum til að hitta gaurinn og kynna hann fyrir gellunni okkar. Kortarar setja þó nokkur skilyrði Eva! engin unglingaheimili, ekkert pönk, engin strok, ekkert klink, ekkert götulíf eða spilatorgsfílingur hjá okkar börnum...
Látum hérna eina góða mynd af nýja prinsinum fylgja með.

May 15, 2007

Músík

Hér í Minneapolisborg er oftar en ekki hægt að komast á góða tónleika. Korthjónin hafa því miður ekki verið dugleg við þá iðju hingað til en nú stendur það allt til bóta. GeðKortið skellti sér þó um daginn á Low tónleika og skemmti sér vel. Í kvöld ætla hjónin að skella sér á Damien Rice tónleika sem haldnir eru á campus, það á bara eftir að vera gaman, frúin er sérstaklega ánægð þar sem Geðið keypti miða í sæti. Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af grindinni eða öðrum kvillum á meðan hlustað er á Rice-inn.
Annars er stórir hlutir í gangi í sambandi við húsnæðismálin, smávægilegar jákvæðar breytingar í gangi. Við leyfum ykkur að fylgjast með framvindun mála þar.

Skellið á linkinn til að hlusta á kallinn.

May 13, 2007

Syndir feðranna

Það er ekki hægt að segja að maður komi heill út úr þessu. B Kort er sonur foreldra sinna og mun líklegast alltaf bera þess skýr merki, góð eða slæm. Korthjónin reyna eftir mætti að halda drengnum í plús, gengur vel að okkar eigin mati. Augljóst er að drengurinn sé alin upp af meðlimum samtaka atvinnulífsins. Fyrir honum er stóra bókin, góða bókin, fólk fer á fundi og talar við guð. Eðlilega hefur þetta áhrif. Um daginn heyrðist í gaurnum þar sem hann var í miðjum playmo-víkingaleik (að ráðast á og drepa munka eins og víkinga er siður), þá segir víkingahöfðinginn Hey, víkingar ég ætla aðeins að hvíla mig og fara á fund!

May 8, 2007

Reality check

Kortfamilían fór á laugardagsmorguninn að skoða fæðingardeildina. Það var smá reality sjok fyrir hjónin, varð einhvernvegin raunverulegt að við erum að fara fæða annað barn eftir sirka 10 vikur. Fæðingardeildin er annars flott og minnir mikið á deildina heima fyrir utan varúðarráðstafanir sem eru til að varna því að börnin týnist eða sé rænt. Góðu fréttirnar eru þær að það er netsambandi þannig að hægt er að senda myndir með det same. B- Kort má koma með og vera viðstaddur herlegheitin. Korthjónin hafa ákveðið að leggja þá traumareynslu á drenginn ef stúlkan ákveður að koma í heiminn áður en Íris Kortvinur kemur 27 júlí, frúin er sett 16 júlí. Við búumst þó fastlega við því að Kortstúlkan sé lík móðurinni og muni því vera ansi sein í heiminn.
Staðan er því þannig að Korthjónin hafa um 10 vikur til að meðtaka það fyrir alvöru að von er á öðru Kortara....

May 5, 2007

Social life

Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt... er eitt af mottóum Kortarfamilíunar, nema þá Karókí og fyllerí (en það er svo sem ekkert nýtt). Við höfum nú kynnst skemmtilegum sið sem viðhafður er í skólanum okkar hérna úti. Í annarlok er venja að einn kennari úr deildinni bjóði nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum heim til sín í potluck, svona til að fólk hittist og eigi saman góða stund. Kortfamilían hefur því seinustu tvo daga farið í svona samkundur og skemmt sér vel. Við vorum þó ekki viss hvort þessi partý væri barnavæn. Þar sem við erum óvön þessu og reynsla okkar úr fyrra námi hefur verið á þá leið að flest teiti eða aðrar samkundur sem boðið hefur verið til í því sambandi hafa vægast sagt ekki verið barnvæn, meira svona Bifröstarfílingur í gangi þar (sem er ekki alveg okkar hugmynd um fjör, allavegna seinustu ár). Þessi potluck byrjuðu öll snemma eða um 16 eða 18 leytið þannig að fólk gæti verið komið heim til sína tímanlega um kveldið. Þetta er eitt af þeim mörgu smáatriðum sem við höfum rekið okkur á hérna í kanaríki sem eru ansi fjölskylduvæn.
Annars er sumarið komið og hitinn eftir því, minnesotabúar kalla þetta þó vorið, að okkar mati þá er þetta alveg nógu heitt og fínt enda eru Kortarar ansi cool á því (Við erum samt ekki ÁSTlaus). Afleiðingar þessa góða veðurs er kvef og önnur drulla sem fylgir því að sofa með viftuna á fullu. Vei, vei alltaf gaman að styrkja ónæmiskerfið....

May 2, 2007

Bauni

Kortfamilían fékk góðar fréttir í vikunni. Vores danske ven Anders a.k.a baunin hringdi alla leið yfir hafið og tilkynnti að von væri á fleiri baunum í heiminn. Við samgleðjumst baunafamilíunni í baunaveldi með nýju baunina. Its about fokking time er það sem kom uppí hugann á Kortmeðlimum við tíðindin. Við vorum farin að hafa áhyggjur að almenn leti dana væri farin að hafa stórleg áhrif á meinta fjölgun en nei, Anders er loksins búin að afsanna að hann er ekki með öllu latur. Það verður bara gaman að sjá baunina þegar sá tími kemur. Kortarar senda baráttukveðjur til baunaveldis og við vonum að Anders nái því að nú þýðir ekkert annað þjónusta og meiri þjónusta við baunafrúnna næstu mánuði. Til lukku!!!