
Ágústa Kristófersdóttir
Nýjasti Kortarinn mun heita Ágústa Kort Gísladóttir.
Ágústa þýðir hin mikla og kemur fra nafninu Augustus sem þýðir hin mikli, sbr. faðir Pax Romana, Augustus aka Octavianus, þann sem mánuðurinn er nefndur eftir, ef minnið svíkur ekki. Tvær konur sem hjartkærar eru Kort fjölskyldunni hafa borið þetta nafn. Fyrsta skal nefna Ömmu á Hóli, en hún hét einmitt Ágústa. Amma ól upp 7 börn eftir að afi féll frá undir lok sjötta áratugs síðustu aldar. Hún var herra Kort góð. Hún var kjaftfor, kaþólsk og ákveðinn alþýðukona og eins laus við snobb og undirlægjuhátt eins og hægt er að hugsa sér. Hún átti sterkan og góðan Guð og gekk bæði til Rómar og Lourdes til að kynnast honum betur. Hún las CS Lewis og Kipling og kenndi herra Kort gildi sögunnar um miskunsama samverjann, með misgóðum heimtum, en einhverjum þó. Hún var sterk og fylginn sér og hafði mikla réttlætiskennd, hún lá ekki á skoðunum sinum. Hún þekkti páfann. Hún lést í byrjun Júlí 1998.
Hin Ágústan er Ágústa systir herra Korts. Hún hefur verið öllum Korturunum góð. Hún er sterk en kannski á eilítið fágaðri hátt en nafna hennar og Amma. Ágústa systir er líklega ein geðheilbrigðasta manneskja sem Kort fjölskyldan þekkir, sem er svosem vafasamur heiður, þvi að í ríki hinna blindu, er hinn eineygði vissulega konungur. Ágústa systir er klár og fylginn sér og segir sannleikann. Máske ekki alveg eins kaþólsk og nafna hennar en hún þarf ekkert að vera rífa sig niður fyrir það.
Við vonum að sú litla standi undir pressunni. Ef hegðun í móðurkviði og fyrstu 48 klst. hefur eitthvurt forspárgildi mun hún sannlega gera það.