Jul 25, 2007

What's in a name?

Ekkert stress, engar áhyggjur, svona viljum við hafa það!





Amma á Hóli a.k.a
Ágústa Kristófersdóttir

Nýjasti Kortarinn mun heita Ágústa Kort Gísladóttir.

Ágústa þýðir hin mikla og kemur fra nafninu Augustus sem þýðir hin mikli, sbr. faðir Pax Romana, Augustus aka Octavianus, þann sem mánuðurinn er nefndur eftir, ef minnið svíkur ekki. Tvær konur sem hjartkærar eru Kort fjölskyldunni hafa borið þetta nafn. Fyrsta skal nefna Ömmu á Hóli, en hún hét einmitt Ágústa. Amma ól upp 7 börn eftir að afi féll frá undir lok sjötta áratugs síðustu aldar. Hún var herra Kort góð. Hún var kjaftfor, kaþólsk og ákveðinn alþýðukona og eins laus við snobb og undirlægjuhátt eins og hægt er að hugsa sér. Hún átti sterkan og góðan Guð og gekk bæði til Rómar og Lourdes til að kynnast honum betur. Hún las CS Lewis og Kipling og kenndi herra Kort gildi sögunnar um miskunsama samverjann, með misgóðum heimtum, en einhverjum þó. Hún var sterk og fylginn sér og hafði mikla réttlætiskennd, hún lá ekki á skoðunum sinum. Hún þekkti páfann. Hún lést í byrjun Júlí 1998.

Hin Ágústan er Ágústa systir herra Korts. Hún hefur verið öllum Korturunum góð. Hún er sterk en kannski á eilítið fágaðri hátt en nafna hennar og Amma. Ágústa systir er líklega ein geðheilbrigðasta manneskja sem Kort fjölskyldan þekkir, sem er svosem vafasamur heiður, þvi að í ríki hinna blindu, er hinn eineygði vissulega konungur. Ágústa systir er klár og fylginn sér og segir sannleikann. Máske ekki alveg eins kaþólsk og nafna hennar en hún þarf ekkert að vera rífa sig niður fyrir það.

Við vonum að sú litla standi undir pressunni. Ef hegðun í móðurkviði og fyrstu 48 klst. hefur eitthvurt forspárgildi mun hún sannlega gera það.

Jul 24, 2007

Kortarinn

Nýji Kortari
Stoltur stóri brósi


Stúlka Gísladóttir er fædd. Hress og greinilega vel í stakk búinn ad takast á við þennan “fagra en falska heim” eins og Mikales höfuðsmaður orðaði forðum. Móðirin er einnig í góðu stuði, miðað við það sem á undan er gengið. Stóribróðir og faðir ad sjálfsögðu sáttir, og fegnir ad vera hvorki með leg né leggöng.

Fæðingin gekk hratt og vel, fyrstu hríðar um 14:30 og búið 16:41. Rembingur stóð í 16 mín. Vont en gott, ekkert verkjastillandi. 16 merkur (3994 gr), lengd 53.3 cm og höfuð 36.2 cm. Kortarar þakka góða og sterka hríðarstrauma

Jul 23, 2007

Gangsetning

Erum mætt á Fairview búið að skella oxytocin í æð á Kortfrúnni. Nú er bara að bíða og sjá. Útvíkkun er um 2-3. Korthjón chilla bara hérna og horfa á ER á meðan hormónið vinnur sína vinnu. Peace

Jul 22, 2007

40 vika og 6 dagar

Já, Kortfamilían hefur aflýst öllum barneignum þangað til á morgun 23 júlí. En þá eiga Kortarar pantaðan tíma kl 8 am í gangsetningu. Því lítur út fyrir að Kortstúlkan fæðist í ljónsmerkinu 23 júlí. Við erum spennt, já mjög spennt að sjá stúlkuna. Þangað til ætlar þriggjamannafamilían að klára það sem hægt er í nýja húsinu. Dagsplanið er einhvernveginn á þessa leið, mála pallinn, fara í Ikea versla stuff, setja upp bókahillur í stofu og ganga frá stofu, setja saman kommóðu fyrir gesti, slaka á, taka til, þvo þvott og chilla....um að gera njóta dagsins.
Þar sem við munum fæða á hátæknisjúkrahúsinu Fairview þá er að sjálfsögðu netsamband þar og munum við því reyna eftir bestu getu að setja inn nýjar fréttir og myndir af fæðingarstuffinu á morgun.

Jul 19, 2007

Gott gengi

Ameríkanar eru greinilega að fíla Kortarana þessa dagana. Um daginn fékk Kortfrúin boð um TA (Teachers assistance) stöðu í deildinni sinni á næstkomandi vorönn, svona stöður eru auðvitað þvílíkt góðar þar sem fríðindin sem þeim fylgja eru ansi góð plús auðvitað sú reynsla sem fæst með þeim. Geði var með svona stöðu á nýliðni vorönn og kom það sér vægast sagt ansi vel fyrir Kortarana. Frúin er því ansi lukkuleg. Geði fékk svo skólastyrk í gegnum hjúkrunardeildina fyrir næsta ár, er þar um góðan afslátt á skólagjöldum að ræða. Að auki fékk hjúkkan líka styrk til að fara á geðhjúkrunarráðstefnu sem haldin verður í Florida í október, vei vei. Það lítur því allt út fyrir að Kortfamilían muni skella sér í smá trip í sólina á haustmánuðum. Við segjum ekki nei við því.
Annars styttist óðum í gestabylgjuna frá the old country, Íris ríður þar á vaðið en hún er væntanleg föstudaginn 27. Daginn eftir kemur svo Hafnarfjarðarliðið, Ásthildur, kærasti +börn. Í byrjun ágúst er svo Vallargengið a.k.a Aratúnssettið væntanlegt. Kortarar eru mjög spenntir fyrir komandi gestunum.
p.s. fæðingarstuff er á hold þrátt fyrir aumkunarverðar tilraunir Kortfrúnar til að flýta þar fyrir. Síendurteknar stigaferðir, lavenderböð, góðar hugsanir, bænir, göngutúrar og nú seinast 18 km hjólaferð hafa ekkert gagn gert þar. Hlýjar hugsanir með sterkum hríðarstraumum óskast því, helst í gær..........

Jul 16, 2007

16 júlí

Í dag er dagurinn sem læknavísindin spá því að litla Kort eigi að koma í heiminn. Það verður gaman að sjá hvort það gangi eftir. Það væri nú ansi gaman sérstaklega þar sem Guðbergur Emil Írisar og Þóris oldy sonur á þriggja ára afmæli í dag.
Björn Kort trúir því að barnið muni koma með keisara og að hún sé með bleikt hár og rauð augu, mikil spenningur þar á bæ.
Korthjón eru þó farin að trúa því að úthald sé eitthvað sem Kortbörn hafi tekið bókstaflega, sérstaklega þegar kemur að því að yfirgefa móðurkvið. Gleðifréttirnar komu þó í dag þegar frúin fór í mæðraskoðun og ljósan spurði hvernig henni litist á gangsetningu í næstu viku eða í kringum 41 viku, vei vei við tökum því fegins hendi. Biðin styttist því hjá Korturum. Ef stúlkan verður ekki komin næsta mánudag þá verður pantaður tími í þeirri viku þar sem náð verður í krakkann. Og já Kortarar taka ekki mark á setningum eins og "þau koma þegar þau vilja".

Jul 11, 2007

Heima er best

Kortfamilían er heldur betur ánægð í nýja húsinu. Seinasta vika hefur farið í það að koma sér fyrir ásamt því að taka meðal annars á móti þrifliði, málurum og cablegæanum. Þetta er allt að smella saman hérna. Kortfamilían er ennþá í skýjunum yfir nýju heimkynnum og hefur þegar bætt met sitt þegar kemur að tíðni eldaðs kveldmatar, þökk sé flottu og góðu eldhúsi. Fyrsta matarboðið í nýja kotinu var haldið á sunnudag þegar hluti þeirra sem hjálpuðu okkur við að flytja og makar komu í grill a la GeðKort. En Geði a.k.a Gilli grill var ekki lengi að kaupa sér eitt stykki gasgrill á nýju veröndina.
Annars er stór dagur á morgun hjá B-Kort. Coco sem er bangsi í leikskólanum kemur heim með Birni og mun hann dvelja hjá okkur í tvo daga. Einkar sniðugt framtak hjá leikskólanum í að kenna krökkunum ábyrgð og annað sniðugt stuff. Á föstudagsmorguninn er svo baby shower á vegum leikskólans fyrir Kortfrúna og þrjár aðrar óléttar mæður þaðan. Þetta á bara eftir að verða gaman.
Af Kortstúlkunni er allt gott að frétta, ljósmóðirin hreyfði belginn á mánudaginn var en stúlkan heldur samt kyrru fyrir. Eitt vitum við þó, og það er að gellan verður komin í allra seinasta lagi 30 júlí.

Jul 3, 2007

Flutningar og fjör

Kortfamilían er flutt. Flutt í suðvestur Minneapolis, við vötnin þar sem fína fólkið leikur sér. Ójá við erum sæl og happý eins og B Kort kallar það. Við þökkum hlýjar flutningskveðjur frá the old country, við erum svo næm fundum vel fyrir straumunum. Flutningarnir gengu vel, góðir félagar úr heimadeild Geð-Kortsins hjálpuðu til við að bera stuffið. Höfðu víst orð á því að þau myndu ekki hleypa öðrum graduate eða vel læsum einstakling í deildina, fannst fjöldi bókakassa einum of. Fyrir hjúkkunni er bókalaus maður eins og brókarlaus maður.
Gömlu leigendurnir þrifu ekki eftir sig þannig að Kortfrúin þurfti heldur betur að sýna húsmæðrahæfileikana á því sviði. Þetta gekk þó allt og meira segja þrifu Korthjónin gömlu íbúðina alla í gærdag. Þrátt fyrir alla flutninga og þrif þá hefur það ekki sveiflað litlu Kortstúlkunni, við þökkum fyrir það.
Annars erum við ennþá að koma okkur fyrir í nýja húsinu. Hingað til hefur Kortfamilína aðeins búið á einni hæð í um 60 til 90 fm. Viðbrigðin eru því ansi mikil að vera komin á þrjár hæðir og fullt af fm. Seinustu dagar hafa farið í það að hlaupa á milli hæða, við finnum lærvöðvana styrkjast í hverju skrefi. Ekki nóg með það svo erum við auðvitað með verönd þannig að Kortarar ættu að verða vel massaðir og tannaðir í nýja húsinu. Myndir af slottinu koma á næstu dögum þegar allt verður reddy.

Kortfamilían óskar Stínu og Hrólfi innilega til lukku með dömuna á dögunum. Spurning hvort Stínan sinni heimaklippingarþjónustu í fæðingarorlofinu, hún væri allavegna mjög velkomin til hárprúðra en fyrst og fremst prúðra Kortarar.

Jun 28, 2007

Kúkahúmor og barnastúss

Um daginn skelltu Kortarar sér á Big brother námskeið á vegum spítalans. Námskeið þetta var hið sniðugast en það var hugsað fyrir 3 til 6 ára gömul systkyni. B Kort fílaði þetta í botn og hafi sjálfur mikið til málanna að leggja þegar kom að umræðum í sambandi við litla barnið. Skemmtilegast þótti gæanum þó að fá að skipta á bleyju og var hann mjög upptekinn af því að lítil börn kúki mikið. B Kort er því orðin ansi spenntur og ágætilega undirbúin fyrir að eignast litla systur, segist verða happy þegar litla baby mætir loksins á svæðið.
Samkvæmt útreikningum sónars ætti daman að vera væntanleg á næstu 2-3 vikum, við vonum það svo innilega að ekki þurfi að reka á eftir þessum Kortmeðlim. Fyrst stefnum við þó á að flytja næsta sunnudag og að frúin klári sumarkúrsinn sem hún er í 6 júlí. Eftir það má allt gerast, sterkir hríðarstraumar óskast því eftir 6 júlí.
Nefndin

Jun 21, 2007

Hjúkkulíf

Eftir stífann mánuð við verkefnaskil, hópvinnu og öðru námstengdu stefnir loks í smá rólegheit hjá Geðinu. Bara vinna, flutningar, gestir, barneignir og tveir sumarkúrsar það sem eftir lifir sumars. Já, reynslan úr geðinu um hvernig á að takast við massíft álag er greinilega að skila sér. Hjúkki er svalur og algjörlega sveiflulaus, eins og honum einum er von. Tappinn mætti á fyrstu formlegu hjúkrunarvaktina hérna í Ameríku í dag, þar á undan var dúddi búin að vera í verklegu námi og kynningarnámskeiðum á nýja vinnustaðnum. Spítalinn heitir North Memorial og deildin kallast mental health crisis intervention unit. Greinilegt er að mikið vinnuálag seinust vikur hefur haft einhver áhrif á Kortið því seint í gærkveldi fattaði tappinn að hjúkkubúninginn vantaði, hér þurfa starfsmenn að redda sínu eigin dressi. Gæinn mætti því eins og óbreyttur í vinnuna í dag, restin af Kortfamilínunni vonar að engin miskilningur verði sökum þess og að G-Kort komist heill úr vinnunni. Nú vantar kallinum bara faglegan hjúkkubúning og þá er hann geim í allt.

Jun 15, 2007

Lúxuslíf

Á næstu dögum mun Kortfamilían flytja í töluvert stærra húsnæði. Kortarar eru þvílíkt spenntir fyrir nýju heimkynnum, það á bara eftir að vera þægilegt að búa í stóru og þægilegu húsnæði,
á þremur hæðum, með þremur svefnherbergjum, stofu, eldhúsi, borðstofu, stofu, fjölskylduherbergi, þvottaherbergi, tveimur baðherbergjum, garði, verönd og bílskúr.
Ójá þvílíkur lúxus fyrir fátæka námsmenn í landi tækifæranna. Kortarar eru þakklátir fyrir húsnæðið en seinustu daga hefur þó smá kvíðahnútur verið að myndast í mallakútum hjónanna, þegar talið berst að heimilisverkum og öðru eins sem fylgir öllum heimilum. Þar sem guðsgjafir Korthjóna liggja ekki í húsmæðrahæfni eða almennum þrifum. Og í ljósi þess að framundan er annasamur tími hjá Korturum, barneignir, áframhaldandi nám og heimsóknir þá sjá Kortin ekki framá að geta sinnt heimilisverkum eins og þau myndu vilja. Í stað þess að örvænta og leggjast í volæði hafa Kortarar ákveðið að ráða til sín einstakling sem tilbúin er í verkið fyrir smá aur. Þar sem Kortarar eru miklir jafnréttissinnar og í stöðugri baráttu við rífa niður staðlaðar kynjaðar steríómyndir, ákváðum við að ráða karlmann í verkið.
Hægt er að skoða ferilskrána hans og verklýsingu á þessari síðu, athugið þó ekki við hæfi barna eða viðkvæmra.

Jun 9, 2007

Haustdagskrá

Kortfamilían ákvað um daginn að hætta við fyrirhugaða heimsókn til the old country um jólin (já, við vitum einn dagur í einu og allt það). Allavegna í ljósi þessara nýju frétta hefur Draumurinn a.k.a. the dancer ákveðið að kíkja aftur á okkur um jólin og eins hafa fleiri fjölskyldumeðlimir bókað flug til okkar á haustmánuðum. Dagskráin er farin að verða ansi þétt og greinilegt að seinnihluti sumars og haustið verða tími heimsókna hjá Korturum. Við fílum það. Kortfamilían hefur ákveðið að setja eitt skilyrði fyrir framtíðargesti sína, fyrir utan það auðvitað að vera ekki hálfvitar. Við viljum lambakjöt og lýsi. Í gær hittum við til að mynda vin okkar Ásgeir í micro mynd á leið sinni til Seattle. Kortarar áttu dinner með dúdda, gaman var að hitta kallinn, B. Kort var þó ánægðastur með kappann. Korthjónin voru ánægðust með lambið sem fylgdi með. ME Me Me

Jun 2, 2007

Old girls

Jæja, í dag er Kortfrúin formlega orðin fullorðin. Komin í tölu eldra fólks eða the old girls. Já, loksins farin að skríða í fertugsaldurinn. Ekki lengur bara gömul og andleg sál, heldur líka líkamlega orðin fullorðin. Nú er víst tími til kominn að hætta öllum fíflalátum og fara hegða sér eins og þeir sem komist hafa yfir 30 ára múrinn. Það var akkúrat fyrir 30 árum um kveldmatarleytið á íslenskum tíma sem Kortfrúin skellti sér í heiminn. vei vei. Í tilefni dagsins þá ætlar frúin að eyða deginum með hinum síungu Korturum og hugleiða lífshlaupið, því ekki getur hún víst hlaupið eins og hún er á sig komin í dag. Þetta er ekki tími til að örvænta, enda hefur Kortínan ákveðið að taka eldri kellur sér til fyrirmyndar þegar kemur að aldursviðhorfum.

Já og Kortarar senda Kortvininum góða Ástgeiri a.k.a the night guy innilegar afmæliskveðjur. Til lukku með 30 árin gamli!!

Jun 1, 2007

Vorhátíð

B. Kort í góðum fíling með Miles vini sínum
Það var vorhátíð í leikskólanum hjá Birni Kort í dag. Svaka stemmning, krakkarnir sungu vel æfð lög og svo var endað á potluck. Sérstaklega gaman að sjá hvað B er söngelskur (hvaðan sem hann hefur þann hæfileika) og að gæinn kunni öll lögin, bara flottur gaur.
Nýtt albúm komið valleyfair og vorhátíð

May 30, 2007

Action

Lentum í sérstakri reynslu um daginn hérna í Bushlandi. Þar sem Korthjónin eru bæði búin með vorönnina þá vorum við bæði heima að hvíla lúin bein og heila og endurhlaða batteríin fyrir komandi sumarönn. Hugmynd Kortara um hvíld felst meðal annars í því að horfa á gott sjónvarpsefni og aðrar áreynslulausar athafnir. Í miðri Kort-síestu var dyrarbjöllunni hringt, ekki var von á neinum hvorki pakka frá ebay né gestum. Geð-Kortið tók á móti dinglaranum sem í þetta sinn var umkomulaus heimilislaus rónakona. Geðið auðvitað þaulvanur eftir alla klínikina í vetur hélt ró sinni. Konan var komin til að biðja um hjálp en hún tjáði G að vinkona hennar væri niðri í garði, parkinn sem er fyrir neðan okkur, og að eins og hún sagði sjálf she is bleeding excessively. Geðið átti nú von á öllu, skaust upp náði í handklæði og hélt af stað tilbúin að veita fyrsta flokks hjúkrunarnærveru, á meðan hann hringdi í 911. Þegar G mætti á svæðið þar sem nokkrir heimilislausir höfðu búið um sig rétt fyrir neðan garðinn, voru engar óhóflegar blæðingar í gangi en þar var vinkonan með nokkra tíma gamalt nefbrot og smá blæðingar í kjölfarið á því. Gellan hafði verið kýlt af kærasta sínum fyrr um daginn. Heimilisofbeldi eða í þessum aðstæðum heimilislaustofbeldi í gangi þar. Sjúkraflutningsmennirnir komu svo eftir að Geðið var búið að leiðbeina þeim á staðinn því, dvalarstaðurinn var vel falinn. Kortfrúin var viss um að þetta væri allt stórt plott gert til þess að ræna Geðið...Já, sumar paranojur eru lífseigar. Um daginn fór Geði og gaf blóð eða blóðflögur og tók það ansi langan tíma, frúin var á þeim tíma farin að trúa því að gæinn hefði lent í höndunum á líffæraþjófum, sem væru búnir að hreinsa gaurinn. Allavegna alltaf gaman að lenda í action.

May 25, 2007

Batahelgi

Korthjónin skrifuðu undir húsaleigusamninginn í gær, þar með er það skjalfest. Liðið flytur í vestur Minneapolis 1 júlí þar sem fína fólkið býr við vötnin. Heyrðum það um daginn að hverfið okkar í dag er þekkt undir nafninu little Mogadishu . Bara gaman af því! Við erum geðveikt spennt fyrir flutningunum. Þangað til chillum við bara hérna með Sómalíuliðinu og njótum þess að vera í göngufæri við bæði campusinn og Fairview sjúkrahúsið (þar sem frúin er í mæðravernd).
Í kvöld er stefnan tekin á stóra samkomu sem er árleg hérna í Minneapolis og kallast Gopher State Roundup. Það verður sérstaklega gaman að hlusta á hin íslenskuættaða Karl M, Íslandsvin með meiru. Já, þó svo Kortarar sjái fram á betri búsetu í samfélagi við bæði milli og efristéttir. Þá höfum við ekki gleymt fortíðinni dimmu og sækjum því áðurnefndar samkundur með bros á vör. Peace

May 21, 2007

Valleyfair og sólbruni

Kortfamilían ákvað að fagna formlega annarlokum og góðum námsárangri hjónanna með því að skella sér í Valleyfair um helgina. Þessi garður fær topp einkunn, þarna eru tæki fyrir alla aldurshópa þannig að allir geta skemmt sér vel. Geðkortið fékk þarna góða útrás í mörgum tækjunum. Sömu sögu er að segja af B kort sem fílaði þetta í botn og var ansi þorinn. Að hans sögn þá var hann að passa pabba sinn í flestum tækjunum. Frúin fékk að fara í hringekkju og parísarhjól. Sökum óléttu var henni meinaður aðgangur að öllum öðrum tækjum. Því fylgdist kella bara með skemmtun Kortfeðganna og skaðbrenndist á öxlunum á meðan. Lexía dagsins: þegar sól er, þá skal nota sólarvörn. Valleyfair er staður sem Kortarar munu vafalaust heimsækja aftur. Sunnudagurinn fór svo í playdate með Miles vini hans B þar sem drengirnir skelltu sér m.a. í sund. Íslenskur hryggur var svo eldaður al Kort og mömmu hans Miles boðið í mat. Góð helgi þar fyrir Kortara, (fyrir utan sólbruna sem leiddi af sér andvökunótt hjá Kortfrú, smá problem að sofa á maganum þegar eitt stykki barn er þar fyrir).
Af húsnæðismálum er bara gott að frétta, Kortarar fengu símtal áðan þar sem staðfest var að við fáum að leiga hús sem að okkar mati er bara draumur. Við hættum s.s. við góða húsið sem planið var að leiga og fórum í húsnæðisleit að nýju. Fundum þá hús á þremur hæðum með þremur svefnherbergjum, einu family room með arinn, eldhúsi þaðan sem labbað er út á verönd með garði+ bílskúr og önnur rafmagnstæki sem halda hjónaböndum saman eins og uppþvottavél og öðru eins. Hús þetta er í vestur minneapolis í göngufæri við sjálft Lake Calhoun. Annað í göngufæri eru m.a lítil stönd, Whole foods búðin og skemmtilegir veitingastaðir. Eins er hverfið bara skemmtilegt ekkert broken windows dæmi í gangi hér. Kortara eru bara ánægðir með þessar fréttir sem sýna okkur enn og aftur að það góða getur verið óvinur hins besta.

May 19, 2007

Samvinna

Hressleikinn ræður ríkjum hér í landi hinna frjálsu. Önnin senn á enda kominn og tími til kominn að fá sér vinnu, svona með 10 einingunum og nýja kvekindinu, svo manni ekki leiðist. Tveir spítalar komu til greina eftir ýmsar útilokunaraðferðir. Einn þeirra er með heila deild af sjúklingum með antisocial personality disorder. Sjúkdómgreining krimmans. Ætti ekki að vera mikið mál. Hinn er í norður úthverfunum. Gæti skellt mér í smá ER afleysingar þar. Séð fleiri skotsár en þau gera á herspítalanum í Bagdad. Báðir vildu geðkortið vegna góðra meðmæla samnemenda sem vinna á stöðunum, “hveim er sér góðan getur” og allt það. Var nú einu sinni frægur að endemum. Virkar betur að hafa góðan orðstír heldur en vera frægur að endemum þegar sótt er um vinnu. Einhvurra hluta vegna……….
Jamms maður ætti að koma heim hokinn af reynslu, með svona 1000 yard stare eins og þeir fengu í Víetnam. Vera eins og gellan sem kenndi okkur bráðahjúkrunina heima, lærði útí Florída, var orðinn sérfræðingur í að meðhöndla stungusár í heilastofninn. Með ydduðum tannburstum. Það var nebblilega ríkisfangelsi nálægt spítalanum………
Er búinn að framkvæma ansi mörg greiningarviðtöl frá áramótum. DSM IV orðinn samgróinn vitundinni. Skjótari en skugginn að greina. Öll mannleg hegðun er fyrir mér eitt stórt sjúkdómseinkenni. Sérlega góður að framkvæma skyndi- Axis 2 greiningar (persónuleikaraskanir) á gestum og gangandi, en þó sérlega vinum og vandamönnum.

Í tilefni af því hversu kaninn hefur tekið Kortfjölskyldunni vel læt ég hér fylgja með annað frábært dæmi um samvinnu norrænna manna og Amrískra.
http://www.youtube.com/watch?v=t2RmgQo8N-M&mode=related&search=

May 18, 2007

Velkominn Kári

Kortfamilían eignaðist nýjan vin á dögunum eða 10 maí sl. Nýji vinurinn Kári gæi er sonur Evu Kortvins til margra ára. Eva er m.a ein af þeim útvöldu sem var þess heiðurs aðnjótandi að fá að búa með Korthjónum þegar Kortævintýrið byrjaði á Sólvallagötu 9 um árið (að verða 7 ár). Við samgleðjumst Evu og Edda innilega með litla gaurinn. Gæinn er víst rauðhærður en samkvæmt læknisfrúnni er það toppurinn. Við hlökkum til að hitta gaurinn og kynna hann fyrir gellunni okkar. Kortarar setja þó nokkur skilyrði Eva! engin unglingaheimili, ekkert pönk, engin strok, ekkert klink, ekkert götulíf eða spilatorgsfílingur hjá okkar börnum...
Látum hérna eina góða mynd af nýja prinsinum fylgja með.

May 15, 2007

Músík

Hér í Minneapolisborg er oftar en ekki hægt að komast á góða tónleika. Korthjónin hafa því miður ekki verið dugleg við þá iðju hingað til en nú stendur það allt til bóta. GeðKortið skellti sér þó um daginn á Low tónleika og skemmti sér vel. Í kvöld ætla hjónin að skella sér á Damien Rice tónleika sem haldnir eru á campus, það á bara eftir að vera gaman, frúin er sérstaklega ánægð þar sem Geðið keypti miða í sæti. Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af grindinni eða öðrum kvillum á meðan hlustað er á Rice-inn.
Annars er stórir hlutir í gangi í sambandi við húsnæðismálin, smávægilegar jákvæðar breytingar í gangi. Við leyfum ykkur að fylgjast með framvindun mála þar.

Skellið á linkinn til að hlusta á kallinn.